Um Orkuhúsið

Orkuhúsið er stærsti einkarekni meðferðarstaðurinn (health clinic) á sviði stoðkerfisvandamála á Íslandi. Að Orkuhúsinu standa Læknastöðin, Sjúkraþjálfun Íslands og Röntgen og hafa þessi fyrirtæki verið saman frá stofnun Orkuhússins.  Þannig náum við saman að þjónusta viðskiptavini okkar á sem fjölbreyttastan hátt á sama stað.

Í húsinu starfar því fjöldinn allur af sérfræðingum á sviði læknavísinda, sjúkraþjálfunar og myndgreiningar. Langflestir sérfræðingarnir hafa hlotið þjálfun sína erlendis til margra ára og þá einna helst í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Um 120.000 heimsóknir eru árlega í Orkuhúsið og fá viðskiptavinir þar skjóta og samhæfða greiningu og meðferð á sínum stoðkerfisvandamálum.

Verið velkomin að heimsækja okkur að Urðarhvarfi 8, 6. hæð A-hluta, 203 Kópavogi, til að fá faglega greiningu og meðferð í vinalegu og hlýlegu umhverfi.

Læknastöðin

Á Læknastöðinni starfa rúmlega 50 manns, þ.m.t. bæklunarlæknar, svæfingarlæknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, læknaritarar og móttökuritarar. Við leggjum metnað okkar í að veita sem besta þjónustu við sjúklinga í þægilegu umhverfi.

Læknastöðin sinnir stórum hluta sjúklinga með stoðkerfisvandamál alls staðar af á landinu. Á skurðstofum félagsins eru gerðar um 5000 aðgerðir á ári. Þetta eru einkum ýmsar liðspeglunaraðgerðir, krossbandsaðgerðir, handa- og fótaaðgerðir. Allt eru þetta dagaðgerðir þar sem sjúklingar fara fljótlega heim að lokinni aðgerð. Móttökustarfsemi Læknastöðvarinnar er umfangsmikil og til okkar leita um 20.000 einstaklingar á ári.

Skoða vefsíðu

Röntgen Orkuhúsinu

Röntgendeild Orkhússins er sérhæfð í stoðkerfismyndgreiningu en þar eru einnig gerðar allar  almennar myndgreiningarrannsóknir. Deildin er búin tölvusneiðmyndatæki, tveim segulómtækjum, ómtæki og röntgentæki. Deildin þjónustar Orkuhúsið sjálft en einnig fjölda annarra heilbrigðisstofnanna, sér m.a. um allan úrlestur rannsókna sem framkvæmdar eru á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Skoða vefsíðu

Sjúkraþjálfun Íslands

Á stofunni starfa nú um 27 sjúkraþjálfarar sem sinna allri hefðbundinni sjúkraþjálfun en hafa þó sérhæft sig í stoðkerfisvandamálum, íþróttameiðslum, sogæðameðferð og endurhæfingu eftir hnjá- og axlaraðgerðir.  Nálastungumeðferðir eiga sér stað þar auk þess sem þar eru gerð þrekpróf og ýmsar mælingar s.s. mjólkursýrumælingar.

Sjúkraþjálfararnir eru í góðum tengslum við íslenska íþróttahreyfingu og starfa með mörgum félagsliðum og landsliðum Íslands.

Áhersla er lögð á faglega þjónustu á sviði endurhæfingar og þjálfunar ásamt samvinnu milli fyrirtækja með hagsmuni viðskiptavina í huga.

Skoða vefsíðu